Freitag, Januar 27, 2006

 
Fortune dagsins
"Gillzenegger" - Í tíma áðan var mér bent á að ef Egill Skalla-Grímsson væri uppi núna væri hann e.t.v. kallaður þetta.
-- Ármann Jakobsson 11.01.2006

Þvílíkt bull!
Egill Skalli var holdgervingur karlmennskunnar: Grófur, sveittur, loðinn, sterkur, brutal.
Egill Gillz er holdgervingur hálfkarlmennskunnar: Rakar punginn, notar rakakrem og ilmvötn, sefur með gúrkur á augun og stundar ljósabekki til að verða.... heltannaður.


Helstu tíðindi
Hámark letinnar. Þjóðhagfræðikennarinn var bara með lesnar spurningar á prófinu. Ég dauðsé eftir því að hafa raunverulega reynt að læra efnið í stað þess að tækla spurningalistann eins og maskína. Nú er vonandi bara eitt próf eftir, þ.e. ef meðaleinkunnin úr öllum 10 prófunum nær 7. Annars á ég eitt til góða í þriðja hlutanum til að lyfta mér upp. Helvítis lögfræðin skekkti myndina.


MR krókurinn
Próf í morgun og sýnist mér þau flest hafa staðið sig með ágætum. Diffrun, diffrun og meiri diffrun, Ég reyndi að hafa eitt hagnýtt dæmi til að brjótast úr einhæfninni... var kannski fullerfitt þrátt fyrir smá hjálp og góðan vilja.

Dienstag, Januar 24, 2006

 
Fortune dagsins
As far as the laws of mathematics refer to reality, they are not certain,
and as far as they are certain, they do not refer to reality.
-- Albert Einstein


Helstu tíðindi
Ég er búinn að fara tvisvar sinnum á skíði þennan veturinn sem er tvisvar sinnum oftar en ég hef gert samtals síðustu tvö árin. Eins og ég skrifaði í fyrri færslu var fyrsta skiptið ágætt þrátt fyrir að vera heldur stutt og vera meir í formi biðar en skemmtunar. En nú var annað upp á teningnum. Fór síðastliðinn fimmtudag eftir vinnu og náði 2.5 klst í frábæru færi og er það understatement eins og sagt er á góðri engilsaxnesku.

Var fyrst 1.5 klst á þessum svakafínu carver skíðum sem gerðu það að verkum að ég sveif niður gilið eins og engill. og síðan skipti ég yfir á bretti og náði 3 góðum ferðum niður öxlina, datt aðeins einu sinni sem telst harla gott miðað við hve lítið ég kann á þetta djöflatæki. Það var sem sagt sæll og glaður Greifi sem hélt heim á leið eftir þessa frábæru skemmtun.

Ég hef lítið bloggað undanfarið og er ástæðan sú að ég er í prófum. Fyrst var "Grundvallaratriði fjármálaútreikninga", á fimmtudag þjóðhagfræði og á mánudaginn kemur greining ársreikninga. Helst kvíð ég fyrir þjóðhagfræðinni.


MR krókurinn
Er að verða búinn að taka helstu reglur um diffrun fyrir, þ.e. einföld föll, margfeldi, deiling diffranlegra falla sem og samsett föll. Vopnabúrið er því orðið harla gott og eru börnin í stakk búin til að takast á við "alvöru" dæmi. Setti nokkur skemmtileg á fyrstu heimadæmi vetrarins sem reyna á mismunandi þætti afleiða. Síðasta er langerfiðast og reynir m.a. á að búa til kostnaðarfall sem þarf síðan að diffra til að finna lággildi.

Dienstag, Januar 17, 2006

 
Fortune dagsins
Britain has lowered the tax on chastity belts by about 60 cents each...
[reclassifying them] as a safety device rather than... clothing
-- NY Times


Helstu tíðindi
Vegna fjölda fyrirspurna fylgir hér útskýring á sýnidæminu mínu sem ég tók fyrir um daginn. Bráðskemmtilegt verkefni að mínu mati.


Þversnið úr fötu Posted by Picasa

Myndin hér til vinstri á að sýna þversnið af vatnsyfirborði fötu þegar henni er snúið með föstum hornhraða um samhverfuás sinn. Hugsum okkur vatnsögn einhvers staðar á vatnsyfirborðinu og skoðum þá krafta sem á hana verka.

Við höfum 2 krafta í stöðugu ástandi; annars vegar þyngdarkraftinn m*g og hins vegar Normalkraft sem er af óþekktri stærð. Hins vegar vitum við úr aflfræðinni að eigi kerfið að vera stöðugt þá þarf að gilda að summa þessara kraftvektora sé jöfn "miðsóknarkraftinum" w^2*x*m en það er í raun gervikraftur.

Nú notfærum við þá þekkingu okkar að hallatala fallsins sem lýsir yfirborðinu er hornrétt á normalinn og með því að skoða vektorana á myndinni má léttilega sjá að dy/dx = w^2*x/g (hlutfall hornréttu vektoranna þegar þeim hefur verið snúið um 90 gráður).

Erum þá komin með fyrsta stigs diffurjöfnu og má auðveldlega ganga úr skugga um að lausn hennar með jaðarskilyrðið f(0) = 0 er: y = w^2/(2*g)*x^2

Montag, Januar 16, 2006

 
Fortune dagsins
Famous last words:

Ég fattaði þennan ekki alveg strax en hann er ansi sterkur.


Helstu tíðindi
Við feðgarnir mættum á útskrift HR í Borgarleikhúsinu á laugardaginn þar sem verið var að brautskrá mága mína tvo. Allt fór vel fram en það tók verulega á að halda piltinum góðum í ca 2 tíma, sérstaklega var ég stressaður þegar Guðfinna rektor bað um 1min þögn vegna andláts Rúnars Svifvængjafélaga því það hefði verið mjög dapurt ef dengsi hefði kallað eitthvað fram. Ég var þess vegna mjög ánægður með Skjöld Orra sem tókst að þaga þessar 60 sekúndurnar.

Um kvöldið tók við 30 afmæli Bibbu starfsfélaga og var það samkoma hin skemmtilegasta. Ræddi m.a. heilmikið við Harald pólfara sem er einn fárra manna sem klifið hafa hæsta toppa allra heimsálfa þessarar jarðkringlu sem og gengið á báða pólana. Respect og massíft af því. Lenti svo í því að vera hálfpartinn þvingaður til að halda ræðu en það gekk bara furðuvel, sjálfsagt hjálpar kennslureynslan til við að standa svona einn fyrir framan stóran hóp og babbla eitthvað misgáfulegt.

Sunnudagurinn var skíðadagur en ég hef samt átt þá betri. Lögðum af stað um 12 leytið og þegar við vorum loksins mætt á svæðið þurfti ég að bíða í klukkutíma eftir að fá skíðagræjur... hundléleg skíði en skórnir voru alveg einstaklega þægilegir sem skiptir öllu máli. Fór beint í nýju lyftuna en röðin gekk hægt sökum brettadóna sem voru alltaf að troða sér framfyrir. Að sjálfsögðu sagði ég þeim að fara aftast en uppskar óbeinar líflátshótanir og mikla óvelvild fyrir vikið. Þetta er ástæðan fyrir að ég þoli ekki unglinga á bretti, þeir eru svo fjandi ósvífnir og illa upp aldir, annað en elítan sem kann þá list að renna sér á skíði. Hvað um það, ég náði heilum 2 ferðum, fyrri var frekar stirð eins og von var vísa en sú síðari nokkuð góð miðað við efniviðinn sem ég hafði úr að spila. Stutt en gott gaman það.

Freitag, Januar 13, 2006

 
Fortune Dagsins
Q: What's the difference between a cocker spaniel and a doberman pinscher humping your leg?
A: You let the doberman finish.

Hvers vegna ætli það sé :+)


Helstu tíðindi
Skjöldur Orri sló í gegn í píanótímanum í gær. Kláraði Kópavogur-hopp-hopp með stæl og er því kominn með nýtt verkefni. Í verðlaun fyrir glæsilega frammistöðu fékk hann Svarthöfðadúkku og brosti hann allan hringinn af ánægju.

Gott skíðafæri er í bláfjöllum og á víst að opna klukkan 15. Spurning hvort ég komist og spurning hvort ég leigi mér bretti eða skíði en ég er svo sannarlega með fiðring í maganum því löngunin er alveg djöfulli mikil.


MR Krókurinn
Ég fékk þessa "frábæru" hugmynd að koma með hagnýtt innlegg í kennsluna. Áður hafði ég lýst því hvernig nota má afleiður falla til að finna há- og lággildi (nýtist m.a. þegar lágmarka skal kostnað eð hámarka framleiðslu) en vildi koma með dæmi ótengt fjármálaheiminum. Maður vill nú ekki láta líta út fyrir að ekkert annað en peningar komist að.

Svo hvað reyndi ég að gera? Jú leiða út jöfnu fyrir lögun á vatnsyfirborði í fötu þegar henni er snúið um samhverfuás með föstum hornhraða. Þrátt fyrir að virðast flókið þá er sönnunin sáraeinföld og ætti sú kunnátta sem börnin mín búa yfir að nægja til að skilja hana. Í ljós kom að nokkrir vankantar voru á þessari hugmynd:
1. Þau þekktu ekki hugtakið hornhraði.
2. Þau höfðu ekki lært neitt um miðsóknarhröðun.
3. Vektorreikningar eru framandi hugtak.
4. Ekki er komin góð tilfinning fyrir dy/dx smástærðarhugtakinu.
5. Þau hafa aldrei séð eða heyrt minnst á diffurjöfnur.
6. Framsetning mín var ekki nógu skipulögð.

Ég vona samt að þessi "kynning" hafi aðeins opnað dyrnar inn í heim diffurjafna og tengingu afleiða við eðlisfræði sem og heim annarra hagnýtra vandamála en ekki ruglað þau endanlega í ríminu.

Montag, Januar 09, 2006

 
Fortune Dagsins
A guy walks into a pub and asks: "Does anyone here own a Doberman? I feel really bad about this, but my Chihuahua just killed it."
A man leaps to his feet and replies, "Yes, I do, but how can that be? I raised that dog from a pup to be a vicious killer."
"Yes, well, that's all well and good," replied the first, "but my dog's stuck in its throat."

Réttlátt karma að verki. Ekki ósvipað fréttinni sem ég las á mbl.is í morgun:
Bandarískur maður kastaði mús, sem hann hafði fundið í húsi sínu í hrúgu af laufi sem hann var að brenna. Músin stökk hins vegar logandi inn í húsið aftur og kveikti í því.
-- mbl.is 09.01.2006


Helstu tíðindi
Ég skrapp á forútsöluna hjá Herragarðinum á miðvikudaginn var og skv. hefðinni fann ég jakkaföt, nokkrar skyrtur og fínt bindi. Þetta kallar á nokkur útgjöld og er ég svo sannarlega farinn að svitna því ofan á þetta bætast gleraugun sem bíða uppi á velli. Það er dýrt að lifa.

Guðrún Björk vinkona hélt upp á þrítugsafmælið síðastliðinn laugardag og voru svo sannarlega ljúffengar kræsingar á boðstólnum. Í forrétt rækjur, fiskur og egg í hlaupi. Í aðalrétt rautt eðalnaut með bökuðum riffluðum kartöflum og tilheyrandi og í eftirrétt perur sem höfðu verið bakaðar upp úr púðursykri og Jack Daniels viský. Mmmm þetta var allt mjög gott og þá er vægt til orða tekið.


MR krókurinn
Ekkert markvert enn sem komið er. Það helsta er að einn nemandi hefur bæst í hópinn.

Mittwoch, Januar 04, 2006

 
Fortune dagsins
No matter where I go, the place is always called "here".
-- höf. óþekktur


Helstu tíðindi
Ég var að klára að lesa bókina "Við enda hringsins" sem Elma gaf mér í jólagjöf. Þetta var fín lesning sem minnti á DaVinci lykilinn en er samin 2 árum á undan þeirri sögu. Ólíkt DV lyklinum er hvíti albínóinn í þessari sögu góði gæinn auk þess sem hann er alvarlega með kynlíf á heilanum og fullur af alls kyns komplexum... sem sagt bara nokkuð mannlegur.

Annars voru að berast þau sorglegu tíðindi að gjaldkeri svifvængjafélagsins lést á gamlársdag þegar vængur hans féll saman. Skv. blöðunum höfðu þeir verið varaðir við að reyna lendingu þar sem slysið átti sér stað vegna hugsanlegra sviftivinda. Þetta kennir manni að sjaldan er of varlega farið og áhættan er alltaf til staðar í þessari íþrótt. Hægt er að líkja þessu við að aka bíl, fari maður eftir ábendingum reynslumeiri manna sem og settum reglum eru líkur á því að lenda í slysi í lágmarki en sé farið af stað í glannaskap og sénsar teknir er voðinn vís.

Ég held ég haldi mig við Hafrafellið sem og þekkta staði næstkomandi sumar en stefni svo á öruggt svæði í Californíu um haustið. Það væri samt gaman að taka fram vænginn á góðum skíðadegi og fara eitt slæd yfir Skálafellssvæðið... læt verða af því ef ég finn einhverja reynslubolta með mér til halds og trausts.

This page is powered by Blogger. Isn't yours?