Sonntag, September 08, 2002

 
Á morgun er Knabenschiessen sem er hátíð fyrir krakka og þá sérstaklega pilta. Knabenschiessen snýst um að allir strákar sem eru ca 14 ára gamlir keppa í skotfimi á alvöru herriffli og fær sigurvegarinn vegleg verðlaun sem eru sambærileg við fínustu fermingargjafir, reyndar mega stúlkur einnig taka þátt nú á dögum og hefur það a.m.k. einu sinni komið fyrir að ein af þeim bar sigur úr býtum.

Vissulega er Skjöldur Orri enn of ungur til þess að taka þátt en það góða við þessa hátíð er að risastórt ferðatívolí kemur í bæinn og fórum við með strákinn í nokkur tæki á áðan. Til að byrja með var Skjöldur við sama heygarðshornið, þ.e. fór að væla þegar ég ætlaði að setja hann í ofursakleysislega hringekju. Honum til stuðnings stóð ég því hjá honum ofan á hringekjunni þótt það hafi sennilega ekki verið leyfilegt, eftir nokkrar sek sá pilturinn þó ljósið og fór að brosa. Síðan kom tæki 2 og hringekja 3 alltaf aðeins rosalegri en það sem á undan fór og toppuðum við daginn á því að skella okkur saman í risastóra rennibraut og hvað haldiði, stráksi varð alveg trítilóður þegar við héldum heim á leið. Svona er lífið, annað hvort er það í eyra eða ökkla.

Reyndar voru strákarnir ekki þeir einu sem munduðu byssurnar, á tívolísvæðinu voru nefnilegar alls kyns tegundir af skotbökkum og þar af einn sem virkaði þannig að ef maður hitti í miðjuna, þá var sjálfkrafa tekin mynd af manni. Sem sagt rosalega flott. Ég byrjaði fullur sjálfstrausts og borgaði fyrir 2 skot... hvers vegna? ... jú sjáiði til, Í þeim tilgangi að fá sem mest út úr fávitum sem eru nógu vitlausir að borga, þá er miðið auðvitað still skakkt svo að a.m.k. eitt skot lendi langt frá markinu, þannig að maður þarf eitt skot til að finna út miðskekkjuna og síðan annað til þess að hitta í miðjuna. Planið var fullkomið en annað skotið hitti rétt fyrir utan og endaði ég því á að borga 3 skot ... hitti þó að lokum og fékk mína mynd.

Nú þegar ég lít á myndina, og þarf ekki að taka fram að ég lít út eins og algjör hálfviti á henni, sé ég ekki að strákurinn fyrir aftan mig er eitthvað að hlæja að mér. Sjálfsagt Svissari sem hefur verið í hernum og því vitað að líkamsstaðan mín var út í hött en hvað get ég gert að því, ekki hef ég gegnt herþjónustu. Það fyndna er að ég fylgdist með honum reyna að skjóta af sér mynd og var hann enn ekki búinn að hitta eftir 5 skot. Sá hlær best sem síðast hlær enda er ég enn glottandi.
Comments: Kommentar veröffentlichen



<< Home

This page is powered by Blogger. Isn't yours?